Söfnun á bændaplasti og áburðarsekkjum

Bændur athugið!

Vegna söfnunar á áburðarsekkjum viljum við benda á að taka þarf í burtu plastpokann sem er innaní áburðarsekknum. Þetta plast er mengað af áburði og er því ekki endurvinnanlegt.
Það má safna því saman og setja í poka sem við getum tekið með í söfnun á bændaplasti og áburðarsekkjum.

Eins viljum við minna á að svart rúlluplast þarf að flokka sér og allt plast þarf að vera laust við annað rusl s.s. netið utan af rúllunum og þess háttar.

Næstu ferðir í bændaplastsöfnun eru:
7. maí "vestur fyrir" - Fljót, Sléttuhlíð, Óslandshlíð, Hjaltadal, Viðvíkursveit og Hegranes.
14. maí "austur fyrir" - Lýtingsstaðarhrepp, Seyluhrepp, Staðarhrepp og Skarðshrepp.

Sumarkveðja, starfsfólk Flokku og Ó.K. Gámaþjónustu.

 

Góður frágangur á sekkjum.

Góður frágangur á sekkjum.

Hreint baggaplast.

Hreint baggaplast.

Söfnun á rúlluplasti á Skaga

Fimmtudaginn 15. mars.

Fyrirhugað er að fara í plastsöfnun á Skaga fimmtudaginn 15. mars. Við munum hringja á bæina eins og venjan er - en það er hægt að fara að undirbúa þetta.

Vinsamlega hafið plastið hreint og laust við annað rusl s.s. netin utan af rúllunum og þess háttar - þið kunnið þetta.

Svart rúlluplast er ekki tekið þar sem enginn endurvinnsluaðili vill lengur fá það til sín.

Létt áminning til fyrirtækja á svæðinu.

Varðandi flokkun á efni til endurvinnslu hjá fyrirtækjum.

Blöð eiga að fara saman í poka - ekki vera laus í gámum/körum.
Umbúðaplast á einnig að fara saman í poka - ekki vera laust.
Fernur þarf að skola og setja sér - passa að þær séu þurrar og hreinar.
Áldósirnar þurfa líka að vera hreinar og þurrar og settar sér.

Ekki má setja í endurvinnslugáma það sem er óhreint t.d. plast utan af matvælum s.s. utan af forsoðnum kartöflum, plast úr fiskiöskjum, plast utan af skinku og öðru þess háttar. Þetta þarf að þrífa vel og þurrka. Einnig má ekki setja saman pappaöskjurnar utan af fiski með plastinu í. Þetta þarf að flokka í sundur.

Spreybrúsar, tónerar, málning og annað spilliefni á ekki að fara í flokkunargámana, þessu þarf að skila inn á flokkunarstöðina sjálfa.
Matarolía er ekki endurvinnanleg - henni þarf að skila inn á flokkunarstöðina - ekki má setja hana í ruslagámana. Brúsarnir undan henni eru ekki endurvinnanlegir, þeim á líka að skila inn.

Frauðplast fer ekki í endurvinnslu - eins og bakkarnir undan tilbúnum mat. Þetta er rusl. Það hefur borið á því að þetta komi í endurvinnslu og jafnvel með matnum í.
Matarafgangar eiga ekki heima með efni í endurvinnslu, afganga þarf að fjarlægja t.d. úr pítsukössum.

Að lokum: ef kar eða gámur eru "menguð" af almennu rusli þá getur flokkunin verið til einskis og jafnvel skemmt fyrir öðrum, þar sem þetta fer allt í sama bílinn.